Ferill 193. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992–93. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 193 . mál.


961. Nefndarálit



um frv. til l. um leiðsögu skipa.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn frá samgönguráðuneytinu Ólaf Steinar Valdimarsson ráðuneytisstjóra. Þá studdist nefndin við umsagnir er henni bárust á 115. löggjafarþingi frá Vitastofnun Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landhelgisgæslu Íslands og Siglingamálastofnun ríkisins. Enn fremur barst nefndinni umsögn frá fjármálaráðuneytinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerðar eru tillögur um á sérstöku þingskjali.
    Lögð er til breyting á skilgreiningu hugtaksins „hafnarsvæði“ í 2. gr. Orðið „særými“ er almennt notað yfir særými skips og þykir því réttara að skilgreina hafnarsvæði sem svæði við höfn sem nánar er tilgreint í reglugerð.
    Lagðar eru til tvær efnislegar breytingar á 5. gr. Annars vegar er lagt til að skylda útgerða til að hafa umboðsmann hérlendis, ætli skip þeirra að hafa viðkomu í íslenskri höfn, takmarkist við að magn hættulegs varnings, sem skipið flytur, sé umfram hættumörk samkvæmt reglugerð. Núgildandi reglugerð, um flutning á hættulegum varningi, er frá árinu 1982. Í 3. gr. hennar er vísað til alþjóðareglna, IMDG-CODE (International Maritime Dangerous Goods Code). Reglurnar byggjast á viðauka við Marpol 73/78, alþjóðasamningi um varnir gegn mengun hafsins sem fullgiltur hefur verið af Íslands hálfu, og fela í sér mörk varðandi flutning hættulegra efna. Hins vegar er lagt til að 2. mgr. falli brott en í reglugerð, er ráðherra setur, verði kveðið á um skilyrði þau er umboðsmanni ber að uppfylla.
    Breytingin á 6. gr. felur í sér að í nýjum málslið verði kveðið á um tilkynningarskyldu erlendra veiðiskipa til Landhelgisgæslunnar þegar þau sigla inn í íslenska efnahagslögsögu. Er það í samræmi við 4. gr. laga nr. 13/1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, en þar segir jafnframt að skip skuli tilkynna Landhelgisgæslunni hvaða veiðar það hefur stundað og á hvaða svæði og hvaða þjónustu skipið sækir til hafnar.
    Breytingin á 7. gr., þar sem lagt er til að orðið hafnsögumaður verði notað í stað orðsins leiðsögumaður, er í samræmi við hugtakaskilgreiningar 2. gr.

Alþingi, 5. apríl 1993.



Pálmi Jónsson,

Sigbjörn Gunnarsson.

Guðni Ágústsson.


form., frsm.



Jóhann Ársælsson.

Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.

Stefán Guðmundsson.



Árni M. Mathiesen.

Árni Johnsen.

Sturla Böðvarsson.